top of page
  • Takk fyrir fyrir að sá orði Guðs í líf mitt
    Ég ólst upp á guðlausu heimili. Faðir minn sagði oft við mig að „það er ekki til neinn Guð, enginn himinn og ekkert helvíti.“ Foreldrar mínir voru alkóhólistar og orðin Guð og Jesús voru aðeins notuð sem blótsyrði á heimili okkar. Ég gekk í Springfield Public School og ég man þegar ég var í grunnskólanum að Gídeonmönnum var leyft að standa á gangstéttinni við hlið skólalóðarinnar og úthluta vasa Nýja testamentum. Þetta var fyrsta Biblían sem ég hafði nokkurn tíma séð og hún var það lítil að ég gat falið hana í dótinu mínu heima og foreldrar mínir myndu aldrei verða vör við hana. Ég hef varðveitt þessa Biblíu í öll þessi ár og gaf hana syni mínum, sem er nú virkur í kristilegu starfi. ​ Ég veit að þetta „sæði“ Guðs orðs sem mér var gefið þennan dag í skólanum átti mikinn þátt í að breyta lífi mínu. Jafnvel þótt ég skildi ekki allt sem ég las á þessum tíma þá segir Biblían að orð Guðs muni ekki snúa tómt til baka. ​ Ég vil lofa og þakka Drottni Jesú Kristi! Fyrir náð Guðs frelsaðist ég síðan þegar ég var 15 ára að aldri. Mig langar til að segja við Gídeonmenn Takk fyrir fyrir að sá orði Guðs í lífi mínu og svo margra annarra. ​ Ég bið þess að Drottinn blessi starf ykkar ríkulega og að hann muni opna ykkur dyr sem enginn getur lokað. Þakka ykkur fyrir enn og aftur! Connie, Missouri The Gideon des.-jan. 2013 Árni Hilmarsson þýddi
  • Notaði pappírinn í því til að vefja sér sígarettur
    Joey fékk afhent Nýja testamenti þegar hann var í fangelsi en notaði pappírinn í því til að vefja sér sígarettur. Hann reykti allt Nýja testamentið nema Opinberunarbókina, sem einhver í fangelsinu notaði til að prédika fyrir honum. ​ „Ég varð fullgildur „gangster“ í undirheimum London, og var inn og út úr fangelsi. Ég framdi glæpi sem varla er hægt að segja frá. Áfengi og eiturlyf voru það sem hélt mér gangandi þangað til ég komst út á ystu nöf. Þá ákvað ég að enda þetta allt. Ég tók byssurnar sem ég hafði notað á aðra til að spila rússneska rúllettu við sjálfan mig. En þrjár tilraunir með þrjár byssur sem hingað til höfðu alltaf virkað fullkomlega mistókust algerlega. ​ Ég var náttúrulega „high“ í áfengis- og eiturlyfjavímu, það hellirigndi, en ég féll á kné í forina og hrópaði upp til Guðs. Ég var sem lamaður, en orðin sem ég hafði lesið og höfðu verið útskýrð fyrir mér í fangelsinu, orðin úr því sem eftir var af Nýja testamentinu mínu, þessi orð flæddu allt í einu yfir mig: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ Op. 3:20. ​ Og Joey Daniels breyttist. Hann frelsaðist frá lífsskoðun sinni og lífsháttum og frá syndum sínum og rekur nú starfsemi við að hjálpa áfengis- og eiturlyfjasjúklingum að losna úr böndum fíknarinnar og að boða þeim fagnaðarerindi Jesú Krists. ​ Viðbót: Joey segir sjálfur í vídeói „Guð mætir þér þar sem þú ert. Ekki öfugt.“ Sem sagt, Guð mætir þér hér. Þú þarft ekki að undirbúa þig. Þú þarft ekki að fara í kirkju til þess að hitta hann. Hann er hér. Og hann á erindi við þig. Þýtt úr Gideons NA British Isles 2012, Böðvar Björgvinsson, 10. júní 2018.
  • Kannski hefði mín köllun í lífinu orðið önnur
    Það var ánægjulegt fyrir okkur í Selfosskirkju að geta tekið á móti Gideonfélaginu með ársþing sitt og var ekki síður dýrmætt að hafa félaga þeirra þátttakendur í okkar hefðbundu sunnudagsmessu. Í messunni tók ég með mér og sýndi fólki mitt Nýja testamenti sem ég fékk einmitt að gjöf frá Gideonfélaginu fyrir rúmum þrjátíu árum. Gjöfin safnaði sannarlega ekki ryki í einhverri bókahillu, því ég gluggaði oft í og las Nýja testamentið og sálmana. Það sést líka á hinni ljósbláu bók að hún var mikið notið því kjölurinn er orðinn illa farinn og ég búin að reyna að binda hana og plasta. Mér þykir líka vænt um að fletta í gegnum hana því ég hef undirstrikað þar ákveðnar greinar sem höfðuðu til mín og það á mismunandi tímum í mínu lífi. Sum staðar hafði ég líka skrifað glósur eða vangaveltur mínar um það sem ég var að lesa. Það er alveg öruggt að þessi gjöf frá Gideonfélaginu hafði mikil áhrif á líf mitt og mögleika mína á því að dýpka trú mína með því að hafa þannig aðgang að þessum hluta Biblíunnar. Það var mér einmitt ekki síður hvatning til þess að lesa önnur rit Biblíunnar og eignaði mér í framhaldinu Biblíuna hans pabba sem var ekki minna lesin. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi gjöf og áhugi minn á því að lesa Nýja testamentið hafi verið einn af örlagavöldum í mínu lífi. Kannski hefði mín köllun í lífinu orðið önnur hefði ég ekki haft svo greiðan aðgang að Nýja testamentinu sem talaði svona sterkt til mín. Mér fannst því heiður að fá að þakka Gideonfélaginu fyrir þeirra gjöf sem sannarlega bar ávöxt og er vonandi hvatning um að halda ykkar góða og dýrmæta starfi áfram. Takk kærlega fyrir mig. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur Selfosskirkju
bottom of page